Verkefnið er hluti af GRÆNA PLANI Reykjavíkurborgar við Ártúnshöfða og Elliðaárvog þar sem stuðlað er að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins með hágæða almenningssamgöngum. Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að Ártúnshöfði og Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Áætlað er að þar rísi allt að átta þúsund íbúðir og þrír grunnskólar í fullbyggðum borgarhluta í bland við þjónustu og aðra atvinnustarfsemi á næstu árum. Við Elliðaárvog verða fjölmargir afþreyingarmöguleikar s.s. sundlaug, sjósund, kajakaðstaða og almenningssvæði fyrir afslappaða samveru. Miklir möguleikar eru til samgönguhjólreiða, góðra lífsgæða, uppbyggingar íbúða fyrir alla og síðast en ekki síst, grænt og fallegt hverfi.