Skóflustunga að 124 nýjum íbúðum sem Búseti húsnæðissamvinnufélag og Bjarg íbúðafélag byggja við Tangabryggju í Bryggjuhverfi Reykjavíkur var tekin 9. júní. Byggingarfélagið ÍSTAK mun sjá um byggingu fjölbýlishúsanna. Verkfræðistofan Ferill sá um verkfræðihönnun og arkitektahönnun var í höndum Arkþings. Félögin byggja á sameiginlegum reit en hvort með sínar áherslur, enda Bjarg leigufélag og Búseti húsnæðissamvinnufélag.
Búseti leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hjá félaginu er að finna mikla fjölbreytni í íbúðasamsetningu eftir rúmlega þrjátíu ára starfsemi. Innan samstæðu Búseta eru reknar í dag yfir 1.000 íbúðir og eru nú um 180 íbúðir í byggingu á vegum félagsins. Búseti byggir nú 78 íbúðir á Keilugranda í Vesturbæ Reykjavíkur, 72 íbúðir við Árskóga í Mjódd og 26 íbúðir við Tangabryggju í Bryggjuhverfinu. Búseti þjónar breiðum hópi félagsmanna með mismunandi þarfir þegar kemur að búsetuformi.