Búseti byggir fjögurra hæða lyftuhús í nýju Bryggjuhverfi Reykjavíkur sem verður hluti af metnaðarfullu og glænýju borgarhverfi á einstökum stað.
Þar sem áður var athafnasvæði Björgunar verður líflegt og mannvænt borgarhverfi í einstaklega góðum tengslum við aðra borgarhluta hvort sem það er til suðurs, vestur eða austurs. Til norðurs er svo einstök nálægð við hafið og fjöruna en við hönnun hverfisins liggja strandir, síki, votlendi og bryggjur til grundvallar. Í skipulagi svæðisins kveður við nýjan tón í íslensku hverfisskipulagi þar sem áhersla á sjálfbærni er í forgrunni og borin er aukin virðing fyrir auðlindum og eignum borgarbúa þar sem land og inniviðir eru nýttir vel.
Í samræmi við markmið Reykjavíkurborgar um kolefnishlutlaust borgarsamfélag tryggja þessar forsendur grundvöll að blómlegri verslun og þjónustu innan hverfis. Íbúar á svæðinu munu njóta góðs af nálægð við eina af aðalstöðvum Borgarlínunnar við Krossmýrartorg. Í heildina er gert ráð fyrir hátt í 6.000 íbúðum á Ártúnshöfðanum þegar fram líða stundir.
Hús Búseta samanstendur af alls 26 íbúðum sem endurspegla fjölbreytileika hverfisins. Mikill metnaður er lagður í hönnun húss og lóðar en lagt er upp með að húsið falli vel að sjálfbæru hverfi.
Í húsinu verða 26 íbúðir af fjölbreyttum toga – allt frá 43 m² til 95,8 m². Í húsinu er ein stúdíóíbúð, ellefu 2ja herbergja íbúðir, ellefu 3ja herbergja íbúðir og þrjár 4ra herbergja íbúðir. Íbúðum á jarðhæð fylgir sérafnotareitur með skjólvegg en á öðrum íbúðum verða notalegar svalir til suðurs eða vesturs. Við hönnun var kappkostað að nýta hvern fermetra vel og eru íbúðirnar því sérstaklega vel skipulagðar.
Eldhúsinnréttingar eru ljósar að lit, stílhreinar og endingargóðar frá Nobilia línunnni frá GKS sem er vottuð með umhverfisvottun Bláa Engilsins. Ofnar og helluborð koma úr smiðju AEG frá Ormsson. Baðherbergisfrágangur er með hefðbundnum hætti – með sturtu, speglaskáp, handklæðaofni og upphengdu klósetti. Íbúðunum eru tryggð góð loftgæði með vélrænu útsogi í öllum votrýmum og eldhúsi. Á gólfum er sérstaklega vandað og endingargott Quick-step harðparket frá Harðviðarvali sem einnig hefur hlotið umhverfisvottun.
Húsið, sem hannað er af Arkþingi, er fjögurra hæða lyftuhús og hefur að geyma 26 íbúðir; stúdíó, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Burðarvirki hússins er steinsteypt og útveggir einangraðir að utan og klæddir með báruálsklæðningu. Mænisþak er á húsinu sem einnig er klætt með báruáli. Skipulagsskilmálar svæðisins kveða á um að uppbrot skuli vera í litatónum og efnisvali húsa og að helmingur húsa á svæðinu skuli vera í björtum litum. Húsin mynda því skemmtilegan og fjölbreyttan hverfisbrag. Búseti leggur áherslu á vandað og stílhreint efnisval með tilliti til umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða er varða rekstur og viðhald.
Öllum íbúðum fylgja geymslur og á jarðhæð verður aðstaða fyrir hjól og vagna. Á helstu gönguleiðum utanhúss verður snjóbræðsla sem nýtir affall úr ofnakerfi hússins. Lóðahönnun er í höndum Landmótunar en gegnt húsinu verður notalegur grænn reitur með leiksvæði og aðgengi að djúpgámum fyrir alla helstu sorpflokkun. Bílastæðum er stillt í hóf en gert er ráð fyrir einu bílastæði á hverja íbúð. Þá verða lagðar raflagnir að stæðum sem greiðir leið að uppsetningu rafhleðslustöðva eftir þörfum.
Við Ártúnshöfðann á sér stað umfangs- og metnaðarfyllsta uppbyggingarverkefni borgarinnar um þessar mundir. Helsta forsenda skipulagsins byggir á því að hverfið sé sjálfu sér nægt um flesta þjónustu. Í hverfinu öllu er gert ráð fyrir þremur nýjum grunnskólum auk nokkurra leikskóla. Á svæðinu er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum umhverfis Bryggjutorg sem skapar miðpunkt hverfisins. Lögð er á það rík áhersla að hverfið sé vel þjónustað af almenningssamgöngum en Borgarlínan kemur til með að liggja í gegnum Stórhöfða á svæðinu miðju. Þar sem Breiðhöfði mætir Stórhöfðanum verður Krossmýrartorg með einni helstu skiptistöð Borgarlínunnar.
Íslensk þéttbýlismyndun byggist sögulega fyrst og fremst á sjósókn en mikilvægur þáttur í hverfinu er gott aðgengi að sjónum og fjörunni. Hverfið býður upp á magnað aðgengi að útiveru umhverfis fjörur, sand, báta og bryggjur. Þá skemmir ekki fyrir að svæðið allt þykir sérstaklega skjólsælt fyrir ríkjandi norðan og suðvestanáttum og góðar göngu- og hjólaleiðir eru í hverfinu til nærliggjandi svæða á borð við Geirsnef og Elliðaárdal. Mikil áhersla er lögð á gróðursetningu borgartrjáa og að hverfið allt hafi grænt yfirbragð en einnig er stefnt að blágrænum ofanvatnslausnum. Gert er ráð fyrir sundlaug í hverfinu.